Bielsa hafnar fréttum um samning

Marcelo Bielsa í sinni uppáhaldsstellingu á hliðarlínunni hjá Leeds.
Marcelo Bielsa í sinni uppáhaldsstellingu á hliðarlínunni hjá Leeds. AFP

Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds United, segir að fréttir um að hann sé í þann veginn að skrifa undir nýjan samning við félagið til tveggja ára séu rangar.

Argentínska blaðið La Nacion sagði í frétt að Bielsa og Leeds væru komin mjög nálægt samkomulagi. Bielsa tók við Leeds árið 2018 og kom liðin upp í úrvalsdeildina síðasta sumar eftir sextán ára fjarveru þess þaðan. Liðið er búið að festa sig vel í sessi um miðja deild í vetur.

„Þessar upplýsingar eru rangar og óhætt að hunsa þær. Aðeins tveir aðilar, ég eða félagið, getum skýrt frá þessu, við erum þeir einu sem vitum hvar málin standa. Ef einhverjar nýjar upplýsingar væru til staðar myndi ég skýra frá því,“ sagði Bielsa við BBC.

Hann hefur aldrei dvalið jafnlengi hjá neinu félagi og núna með Leeds en Bielsa hefur ávallt viljað geyma alla samningagerð þar til keppnistímabili er lokið. Hann skrifaði ekki undir nýjan samning við Leeds fyrir yfirstandandi tímabil fyrr en 24 klukkutímum áður en deildin hófst í september.

mbl.is