Hefur Liverpool fundið arftaka Wijnaldums?

Eduardo Camavinga hefur spilað frábærlega í Frakklandi á tímabilinu.
Eduardo Camavinga hefur spilað frábærlega í Frakklandi á tímabilinu. AFP

Franski miðjumaðurinn Eduardo Camavinga er á óskalista enska knattspyrnufélagsins Liverpool.

Það er Express sem greinir frá þessu en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, sér Camavinga sem arftaka Georginios Wijnaldums á miðsvæðinu.

Wijnaldum, sem er orðinn þrítugur, verður samningslaus í sumar og bendir allt til þess að hann sé á förum til Barcelona þegar samningur hans rennur út.

Camavinga, sem er einungis átján ára, er samningsbundinn Rennes í frönsku 1. deildinni.

Camavinga hefur leikið 30 leiki í frönsku 1. deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað eitt mark. Þá á hann að baki þrjá landsleiki fyrir Frakka.

Hann er samningsbundinn Rennes til sumarsins 2022 og er verðmetinn á 60 milljónir punda.

mbl.is