Birti kynþáttaníð sem hann fékk

Tyrone Mings, leikmaður Aston Villa og enska landsliðsins.
Tyrone Mings, leikmaður Aston Villa og enska landsliðsins. AFP

Tyrone Mings, varnarmaður Aston Villa og enska landsliðsins, bættist í dag í hóp enskra knattspyrnumanna sem hafa skýrt frá kynþáttaníði í sinn garð á samfélagsmiðlum.

Mings birti á Twitter skjáskot af skeyti sem honum barst á Instagram og innihélt miður skemmtileg ummæli í hans garð. Samkvæmt BBC er reikningur sendandans ennþá opinn á samfélagsmiðlinum. Mings hvetur um leið til samstöðu, en kveðst ekki vera að biðja um samúð.

Aston Villa birti í dag yfirlýsingu þar sem þessi framkoma var harðlega fordæmd og fram kom að félagið styddi dyggilega við bakið á Mings sem væri áberandi í fremstu röð í baráttunni gegn kynþáttafordómum í fótboltanum.

Meðal leikmanna sem hafa fengið álíka skilaboð síðustu daga eru Trent Alexander-Arnold, Naby Keita og Sadio Mané hjá Liverpool og Callum Robinson, sóknarmaður WBA.

Swansea, Birmingham og Rangers hafa þegar skorið upp herör gegn kynþáttaníðinu með því að hætta tímabundið á samfélagsmiðlum og skorað hefur verið á knattspyrnuhreyfinguna á Bretlandseyjum að loka alfarið á samfélagsmiðla í einhvern tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert