Vill að van Dijk einbeiti sér að Liverpool

Virgil van Dijk er að jafna sig eftir slæm hnémeiðsli.
Virgil van Dijk er að jafna sig eftir slæm hnémeiðsli. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, telur afar ólíklegt að Virgil van Dijk, varnarmaður liðsins, spili með enska liðinu í lokaleikjum tímabilsins.

Van Dijk meiddist illa á hné í leik gegn Everton í október á síðasta ári og hefur verið frá vegna meiðsla síðan.

Endurhæfing hans gengur vel og þótt það sé ólíklegt að hann spili meira með Liverpool á tímabilinu gæti vel farið svo að hann verði orðinn heill heilsu þegar flautað verður til leiks á Evrópumeistaramótinu í júní.

„Ég veit ekki alveg hvaðan þær fréttir koma að Virgil sé að fara að spila eitthvað á þessu tímabili,“ sagði Klopp í samtali við Liverpool Echo.

„Það hefur enginn sagt mér, þar með taldir læknar Liverpool, að hann muni spila leik með okkur á tímabilinu.

Ég vil auðvitað ekki útiloka neitt en það er mjög ólíklegt. Þetta er í raun eitthvað sem við ættum ekki að vera að ræða eitthvað sérstaklega,“ bætti Klopp við.

Fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, Khalid Boulahrouz, tjáði sig einnig um meiðsli van Dijk.

„Hann á ekki að vera að hugsa um Evrópumótið núna,“ sagði Boulahrouz.

„Hann á ekki að setja óþarfa álag á sjálfan sig á þessum tímapunkti og einbeita sér að Liverpool,“ bætti Hollendingurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert