Chelsea í úrslit eftir sigur á City

Hakim Ziyech skorar sigurmark Chelsea.
Hakim Ziyech skorar sigurmark Chelsea. AFP

Chelsea tryggði sér sæti í úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu með því að vinna sterkan 1:0-sigur á Manchester City á Wembley í undanúrslitum keppninnar í dag. Hakim Zieych gerði sigurmarkið á 55. mínútu leiksins.

Chelsea var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komu sér gjarna í álitlegar stöður, án þess þó að ná að klára sóknirnar með skoti.

Besta færi fyrri hálfleiksins fékk Ben Chilwell á 19. mínútu þegar Reece James fann hann aleinan á fjærstönginni. Chilwell reyndi skot á lofti en hitti boltann illa og skotið framhjá.

Markalaust var í hálfleik.

Í byrjun síðari hálfleiks var Chelsea áfram við stjórn og uppskar mark á 55. mínútu. Timo Werner slapp þá í gegn eftir frábæra stungusendingu Chilwells, sá Ziyech í talsvert betri stöðu sér við hlið og renndi boltanum á hann þar sem Ziyech átti ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum í netið af stuttu færi, 1:0.

Örfáum mínútum síðar hefði Ziyech getað tvöfaldað forystu Chelsea þegar boltinn datt óvænt fyrir hann í vítateignum eftir mistök Rúbens Dias. Zack Steffen í marki Man City kom hins vegar út á móti og varði slappt skot Ziyechs.

Eftir þetta féllu Chelsea-menn talsvert til baka og Man City freistaði þess að jafna metin, án þess þó að hafa erindi sem erfiði enda varnarleikur Chelsea fumlaus.

Meira var enda ekki skorað í leiknum og Chelsea því komið í úrslitaleikinn þar sem það mætir annaðhvort Leicester City eða Southampton, en þau mætast í hinum undanúrslitaleiknum annað kvöld.

Man City gerði fyrir leikinn í dag átta breytingar frá 2:1-sigrinum gegn Borussia Dortmund í vikunni og virtist liðið eiga í talsverðum erfiðleikum með að fóta sig í honum. Í það minnsta fór lítið fyrir frægri sóknarógn liðsins, sem Chelsea kæfði í fæðingu.

César Azpilicueta í baráttunni við Raheem Sterling í leiknum í …
César Azpilicueta í baráttunni við Raheem Sterling í leiknum í dag. AFP
Chelsea 1:0 Man. City opna loka
96. mín. Leik lokið Chelsea er komið í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert