Alltaf velkominn aftur

José Mourinho var rekinn í morgun.
José Mourinho var rekinn í morgun. AFP

„Því miður gengu hlutirnir ekki upp,“ sagði Daniel Levy, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, um brottrekstur portúgalska knattspyrnustjórans José Mourinho í morgun.

Mourinho var rekinn úr starfi eftir að hafa stýrt Tottenahm frá því í nóvember 2019 en gengi liðsins í undanförnum leikjum hefur ekki verið gott.

Þá hefur mikið verið rætt og ritað um meint ósætti hans við leikmannahóp sinn á Englandi en liðið er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum frá sæti í Meistaradeildinni.

„José og þjálfarateymi hans hafa verið með okkur á einhverjum erfiðustu tímum í sögu félagsins,“ sagði Levy í fréttatilkynningu sinni.

„José er risastór persónuleiki og á hrós skilið fyrir það hvernig hann hefur stýrt liðinu og félaginu í þessum faraldri.

Það var sannur heiður að starfa með honum og hann er alltaf velkominn hér en því miður gengu hlutirnir ekki upp,“ bætti Levy við.

mbl.is