Mourinho rekinn

José Mourinho hefur verið sagt upp störfum.
José Mourinho hefur verið sagt upp störfum. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur sagt knattspyrnustjóranum José Mourinho upp störfum.

Það eru fjölmiðlar á borð við The Athletic og Telegraph sem greina frá þessu en gengi Tottenham á tímabilinu hefur verið undir væntingum.

Mourinho tók við stjórastöðunni hjá Tottenham eftir að Mauricio Pochettino var rekinn frá félaginu í nóvember 2019.

Tottenham er sem stendur í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum frá meistaradeildarsæti, en Mourinho hefur verið duglegur að gagnrýna eigin leikmenn undanfarnar vikur.

Tottenham mætir Manchester City í úrslitum enska deildabikarsins á sunnudaginn kemur á Wembley í London og tímasetningin á brottrekstri Portúgalans því afar áhugaverð.

Brottreksturinn hefur hins vegar legið í loftinu en enskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um meinta óánægju í leikmannahópi Tottenham með stjórann.

Telegraph greinir frá því að þeir Ryan Mason og Chris Powell muni stýra Tottenham út tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert