Stuðningsfólk Chelsea krefst svara frá félaginu: Ófyrirgefanlegt

Chelsea er eitt sex enskra liða sem ætla að stofna …
Chelsea er eitt sex enskra liða sem ætla að stofna ofurdeildina svokölluðu. AFP

Stuðningsmannasamtök enska knattspyrnufélagsins Chelsea hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfar þess að félagið er eitt þeirra tólf sem beitir sér nú fyrir stofnun hinnar svokölluðu ofurdeildar tólf félaga frá Englandi, Spáni og Ítalíu.

Í yfirlýsingu Chelsea Supporters Trust segir meðal annars:

„Félagar okkar og knattspyrnuáhugafólk víðs vegar um heim upplifir nú mestu svik sögunnar. Chelsea og ellefu önnur af stærstu félögum Evrópu hafa tilkynnt um fyrirætlanir sínar að stofna „ofurdeild“. Þessi ákvörðun byggist á græðgi og gróðavonum þeirra sem eru á toppnum og tekur ekkert tillit til dyggra stuðningsmanna, sögu okkar, framtíðar okkar eða framtíðar fótboltans í landinu.

Sennilega verður ekkert af þessu, en það segir sitt að Chelsea skuli vera tilbúið til að fórna framtíð okkar í úrvalsdeildinni og enska bikarnum. Stuðningsmannasamtökin hafa rætt ítarlega við stjórn Chelsea um hin ýmsu mál undanfarnar vikur og þetta leynimakk hefur aldrei verið nefnt einu orði. Stuðningsmannasamtökin og félagar þeirra krefjast svara.

Þetta er ófyrirgefanlegt. Nú er komið nóg.“

mbl.is