Everton fordæmir ensku félögin sex

AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þátttaka Liverpool, Manchester United, Manchester City, Chelsea, Arsenal og Tottenham í stofnun nýrrar „ofurdeildar“ í Evrópufótboltanum er fordæmd.

Í yfirlýsingunni segir m.a.:

„Everton lýsir yfir hryggð og vonbrigðum yfir því að sjá tillögur um sjóræningjadeild studdar af sex félögum.

Sex félögum sem hugsa eingöngu um eigin hagsmuni.

Sex félögum sem setja svartan blett á deildina okkar og íþróttina.

Sex félögum sem velja að sýna lítilsvirðingu öllum hinum félögunum sem þau sitja til borðs með í ensku úrvalsdeildinni.

Sex félögum sem telja sig ganga að stuðningsmönnum vísum og svíkja stærstan hluta þeirra, innanlands sem utan.

Á þessum erfiðu tímum á alþjóðavísu, tímum sem eru örlagaríkir fyrir okkar íþrótt, ættu félögin að snúa bökum saman með hagsmuni leiksins og stuðningsfólksins í fyrirrúmi.

Þess í stað hafa þessi félög með leynd gert samsæri um að rjúfa sig frá knattspyrnuheiminum sem hefur þjónustað þau svo vel.

Og í þeim knattspyrnuheimi hyllir Everton hvert einasta félag, hvort sem það er Leicester City, Accrington Stanley, Gillingham, Lincoln City, Morecambe, Southend United, Notts County eða öll hin sem hafa með tilveru sinni auðgað líf stuðningsfólks síns alla tíð. Og það er gagnkvæmt.

Þessi sjálfskipuðu „ofur-sex“ virðast ákveðin í að aftengja stuðningsfólk – þar á meðal þeirra eigið – með því að ógna tilveru leiksins sem við elskum.

Hörð viðbrögð eru skiljanleg og verðskulduð – og þeim þarf að taka mark á.“

Yfirlýsing Everton í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert