Hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi

Pep Guardiola er ekki sáttur við að lið geti ekki …
Pep Guardiola er ekki sáttur við að lið geti ekki færst á milli deilda. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að hann hafi ekki haft hugmynd um hvað var í gangi þegar félag hans bjó sig undir þátttöku í nýju „ofurdeildinni“ í evrópska fótboltanum.

„Ég frétti af þessu nokkrum klukkutímum áður en tilkynningin var send út, væntanlega svipað og kollegar mínir í hinum liðunum. Þeir sögðu mér að það væri tilkynning á leiðinni. Tilkynningin er ennþá þarna en enginn hefur enn talað skýrt og sagt frekar frá því sem á að gerast. Við erum enn í þeirri stöðu,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi í dag.

Spurður hvort það væri ekki óþægilegt að svara spurningum um áætlanir sem hann vissi ekkert um svaraði Spánverjinn:

„Það er heiður. Ég er fínn talsmaður! Við ræðum hlutina sex sinnum í viku á  fréttamannafundum. Við tölum um veiruna, heilbrigðiskerfið og Covid. Spyrjið mig bara um allt, ég segi hvað mér finnst, en satt best að segja er ég ekki rétti maðurinn til að svara þessum spurningum. Við erum með forseta sem getur talað skýrar um hver framtíðarsýnin er og hvert fótboltinn vill stefna. Þetta er óþægilegt fyrir okkur því við vitum ekki allt.

Ég get sagt ykkur hvað mér finnst um þetta út frá því sem ég veit í dag en mikið vildi ég að forseti samtakanna myndi úrskýra fyrir heimsbyggðinni út á hvað þetta  gengur.

Ég styð mitt félag, ég þekki fólkið hérna og er hluti af félaginu, og ég hef mínar skoðanir. Ég væri til í að segja allt þegar ég veit allt. Þetta er þess vegna mjög óþægilegt fyrir okkur alla sex knattspyrnustjórana í liðunum sem um ræðir,“ sagði Guardiola á fundinum.

Spurður um þá fyrirætlun ofurdeildarinnar að um sé að ræða lokaða keppni þar sem ekkert lið getur unnið sér sæti og ekkert lið fallið svaraði hann:

„Það getur ekki kallast íþrótt þegar engin tengsl eru á milli framlags og árangurs.

Ofurdeildin er ennþá fóstur sem er ekki farið að anda. Það er staðreynd málsins. Við spilum í Meistaradeildinni í næstu viku og reynum að komast í úrslit og næsta vetur spilum við í Evrópumótum vegna þess að við verðskuldum það og unnum okkur keppnisrétt þar með árangri á  vellinum.

Rétta fólkið þarf að útskýra hlutina. Ajax hefur orðið Evrópumeistari fjórum eða fimm sinnum en verður ekki í deildinni. Þetta þarf að útskýra,“ sagði Pep Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert