Tottenham með 29 ára stjóra út tímabilið

Ryan Mason fagnar marki fyrir Tottenham fyrir nokkrum árum.
Ryan Mason fagnar marki fyrir Tottenham fyrir nokkrum árum. AFP

Ryan Mason hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska félagsins Tottenham Hotspur til bráðabirgða eftir að José Mourinho var sagt upp störfum og stýrir hann liðinu til loka tímabilsins.

Mason hefur verið yfirmaður þróunarmála hjá Tottenham en er aðeins 29 ára gamall og lék 53 úrvalsdeildarleiki með félaginu á árunum 2008 til 2016. Hann var lánaður til margra félaga um skeið en lék síðan með Hull City frá 2016 til 2018 og spilaði einn A-landsleik. Hann þurfti að leggja skóna á hilluna fyrir þremur árum vegna alvarlegra meiðsla.

Chris Powell og Nigel Gibbs verða Mason til aðstoðar en Ledley King heldur áfram störfum sem aðalliðsþjálfari og fyrrverandi markvörður liðsins, Michel Vorm, snýr aftur til félagsins sem markvarðaþjálfari.

Mason stýrir Tottenham í fyrsta skipti gegn Southampton annað kvöld og síðan bíður hans úrslitaleikur deildabikarsins á Wembley gegn Manchester City á sunnudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert