Vill að styttan af afa sínum verði fjarlægð frá Anfield

Styttan af Bill Shankly blasir við þegar komið er að …
Styttan af Bill Shankly blasir við þegar komið er að Anfield. AFP

Verður styttan af Bill Shankly, manninum sem byggði upp Liverpool sem knattspyrnustjóri í fimmtán ár, fjarlægð frá Anfield? Barnabarn hans vill að það verði gert í kjölfar þess að Liverpool tekur nú þátt í stofnun „ofurdeildarinnar“ umdeildu.

Shankly stýrði Liverpool frá 1959 til 1974 og gerði félagið að stórveldi í enska fótboltanum. Stytta af honum er á áberandi stað framan  við heimavöll félagsins, Anfield.

Fræg ummæli hans um fótboltann hafa orðið ódauðleg: „Sumir segja að fótbolti snúist um líf og dauða en ég er ekki sammála því. Hann er mikið mikilvægari en það."

Chris Carline, dóttursonur Shanklys, segir að ekki sé við hæfi að styttan sé lengur á þeim stað. „Ég veit að nú vitnar fólk til orða hans sem aldrei fyrr  og það sem nú er í gangi er eins langt frá hans hugmyndum og mögulegt er. Það væru engar ýkjur að segja að hann myndi snúa sér við í gröfinni vegna þess sem nú er í gangi og ég vil endilega að styttan af honum verði flutt. Það sárasta við þetta er að Liverpool á  sér mikla sögu og hefð, sem hann skapaði, og að Liverpool sé nú eitt af þeim sex ensku félögum sem stendur í þessu er gjörsamlega óásættanlegt," sagði Carline við staðarblaðið Liverpool Echo í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert