Vill setja ensku liðin sex strax í bann

Alan Shearer fer ekki í felur með sitt álit á …
Alan Shearer fer ekki í felur með sitt álit á aðild ensku liðanna að ofurdeildinni. AFP

Alan Shearer, markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, kallar eftir því að Manchester United, Liverpool, Arsenal, Tottenham, Chelsea og Manchester City verði umsvifalaust rekin úr deildinni vegna þátttöku þeirra í hinni svokölluðu ofurdeild evrópska fótboltans.

„Setjið þau í bann. Setjið þau í bann undir eins ef það er hægt. Þetta er rangt. Það sem þau reyna að gera er ekki rétt. Þetta eyðileggur alla keppni. Sjáið hvað Leicester hefur afrekað og hvað West Ham er að gera. Ef þetta gengur eftir geta þessi félög ekki keppt við þau bestu. Það er einfaldlega rangt,“ sagði Shearer við BBC.

„Eigendur þessara félaga bera greinilega ekkert skynbragð á sögu keppninnar. Þeir hafa enga tilfinningu fyrir tengslum félaganna við stuðningsfólkið og samfélagið. Á meðan þessi faraldur hefur geisað höfum við stöðugt heyrt: „Leikurinn er ekki sá sami án stuðningsfólksins.“ Við skulum athuga hvert viðhorf þeirra er til stuðningsfólksins því nú hefur það látið skoðun sína í ljós og það fer ekkert á milli mála að það vill þetta ekki, við viljum þetta ekki,“ sagði Alan Shearer sem skoraði 283 deildamörk fyrir Southampton, Blackburn og Newcastle á árunum 1988 til 2006.

mbl.is