Við gerðum mistök

Joel Glazer, einn af eigendum United, til hægri.
Joel Glazer, einn af eigendum United, til hægri. AFP

Joel Glazer, einn af eigendum enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur sent frá sér opinbera afsökunarbeiðni til stuðningsmanna félagsins vegna fyrirhugaðrar þátttöku liðsins í ofurdeildinni.

Á sunnudaginn bárust fyrst fréttir af því að félagið væri eitt af tólf félögum sem hygðist hætta þátttöku í Evrópukeppnum á vegum UEFA og stofna sína eigin ofurdeild.

Í gær drógu öll sex ensku liðin sig úr deildinni og í dag eru aðeins þrjú félög eftir af þeim tólf sem ætluðu sér upprunalega að koma að stofnun deildarinnar.

„Undanfarna daga höfum við öll orðið vitni að þeirri miklu ástríðu sem stuðningsmenn okkar hafa fyrir félaginu okkar,“ sagði Glazer.

„Það var nokkuð ljóst strax frá fyrstu mínútu að stuðningsmenn voru á móti svokallaðri ofurdeild og við hlustuðum. Við gerðum mistök og við ætlum okkur að koma hlutunum aftur í samt horf.

Ég geri mér grein fyrir því að það eru margir reiðir og það mun taka tíma fyrir sárin að gróa. Ég mun leggja mig allan fram við að byggja aftur upp traust á milli mín, eigendanna og stuðningsmanna félagsins.

Við þurfum að leita leiða til þess að gera evrópskan fótbolta sjálfbærari en við gerðum mistök með því að halda að ofurdeild væri svarið við því. Það að ætla stofna nýja deild var virðingarleysi við stuðningsmenn okkar og ég sé mikið eftir þeirri ákvörðun.

Manchester United er stórkostlegasta knattspyrnufélag í heims og ég biðst innilega afsökunar fyrir þá óánægju sem við höfum valdið,“ bætti Glazer við.

mbl.is