Tileinkaði sigurinn látnum þjálfara liðsins

Ryan Mason, knattspyrnustjóri Tottenham, á hliðarlínunni í leiknum gegn Southampton …
Ryan Mason, knattspyrnustjóri Tottenham, á hliðarlínunni í leiknum gegn Southampton í gær. AFP

Ryan Mason, bráðabirgðaknattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, tileinkaði 2:1 sigur liðsins gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni fyrrverandi þjálfara hjá liðinu, Ugo Ehiogu, sem lést fyrir fjórum árum.

Í gær voru akkúrat fjögur ár síðan Ehiogu, sem lék á sínum tíma fjóra landsleiki fyrir Englands hönd, féll sviplega frá, aðeins 44 ára gamall, eftir að hafa fengið hjartaáfall á æfingasvæði Tottenham, en hann þá hafði verið þjálfari U23 ára liðsins í tæp þrjú ár.

Mason, sem er uppalinn hjá Tottenham, byrjaði sjálfur að þjálfa yngri flokka liðsins árið 2018 eftir að hann neyddist til að hætta knattspyrnuiðkun vegna höfuðmeiðsla, og lék með Tottenham frá 2008 til 2016. Þekkti hann því vel til Ehiogu.

„Það var margt í gangi hjá félaginu í dag þar sem fjögur ár eru síðan Ugo Ehiogu féll frá, því vil ég tileinka sigurinn honum og fjölskyldu hans. Hann var frábær manneskja og allir hjá félaginu minnast hans enn með hlýhug,“ sagði Mason við Sky Sports eftir leikinn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert