Hræðilegt sjálfsmark Leno tryggði Everton sigur

Richarlison fagnar sjálfsmarki Bernd Leno, sigurmarki Everton, í leiknum í …
Richarlison fagnar sjálfsmarki Bernd Leno, sigurmarki Everton, í leiknum í kvöld. AFP

Everton gerði góða ferð á Emirates-völlinn í Lundúnum og vann nauman 1:0 sigur gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Sigurmarkið kom seint í leiknum og reyndist vera sjálfsmark hjá Bernd Leno, markverði Arsenal.

Arsenal var meira með boltann til að byrja með en skapaði sér ekkert að ráði. Besta færi liðsins fékk Bukayo Saka eftir 18 mínútna leik en skot hans úr góðri stöðu í vítateignum fór beint á Jordan Pickford.

Leikmenn Everton unnu sig sífellt betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og fékk Richarlison mjög gott færi eftir tæplega hálftíma leik. Þá fékk hann stungusendingu inn fyrir frá landa sínum Allan, lék laglega á Pablo Marí, náði fínu skoti í fjærhornið en Leno gerði vel í að verja.

Tíu mínútum síðar fékk Everton aukaspyrnu á hættulegum stað, um 27 metrum frá marki. Gylfi Þór Sigurðsson tók hana og stórglæsileg spyrna hans endaði í þverslánni og fór þaðan yfir markið.

Hvorugu liðinu auðnaðist því að skora í fyrri hálfleik.

Strax í upphafi síðari hálfleiks komst Gylfi Þór í frábært færi eftir fyrirgjöf Séamus Coleman en Rob Holding gerði mjög vel í að renna sér fyrir skotið og bjarga í horn. Coleman virtist að vísu rangstæður í aðdragandanum og VAR hefði því eflaust dæmt markið af ef Gylfi Þór hefði náð að koma boltanum í netið.

Skömmu síðar, á 52. mínútu, fékk Arsenal vítaspyrnu þegar Richarlison sparkaði Dani Ceballos klaufalega niður. VAR skoðaði atvikið og komst að þeirri niðurstöðu að Nicolas Pépé hafi verið rangstæður í aðdragandanum. Ekki var að sjá að svo væri.

Leikurinn róaðist talsvert eftir þetta en Arsenal var aðeins líklegra til að taka forystuna. Um miðjan hálfleikinn fékk Calum Chambers opið skotfæri eftir aukaspyrnu Saka en það fór fram hjá markinu og  stuttu seinna átti Ceballos átti þrumuskot sem Pickford varði vel í horn.

Þegar tæpur stundarfjórðungur lifði leiks tóku gestirnir í Everton forystuna. Richarlison fór þá illa með Granit Xhaka á hægri kantinum, komst upp að endamörkum, gaf fyrir með jörðinni þar sem Leno missti boltann milli fóta sér og stýrði honum í netið. Hræðilega slysalegt sjálfsmark hjá þýska markverðinum.

Arsenal ógnaði lítið sem ekkert eftir markið þar til varamaðurinn Gabriel Martinelli náði skoti úr þröngu færi á þriðju mínútu uppbótartíma en Pickford varði vel. Everton sigldi því að lokum stigunum þremur í höfn.

Everton er eftir sigurinn áfram í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en er nú sex stigum á undan Arsenal í 9. sætinu, og einu stigi á eftir nágrönnum sínum og erkifjendum í Liverpool.

Gylfi Þór lék allan leikinn í liði Everton en Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í leikmannahópi Arsenal.

James Rodríguez og Thomas Partey í leiknum í kvöld.
James Rodríguez og Thomas Partey í leiknum í kvöld. AFP
Arsenal 0:1 Everton opna loka
95. mín. Leik lokið Everton vinnur góðan útisigur á Arsenal!
mbl.is