Hermann: Stefnuleysi og áhugaleysi hjá Arsenal

„Maður er svo svekktur fyrir hönd Arsenal-manna. Þetta virkar bara sem eitthvert agalegt stefnuleysi og áhugaleysi,“ sagði Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði og reynslubolti úr ensku úrvalsdeildinni, í Vellinum á Símanum Sport í gær.

Arsenal tapaði 0:1 gegn Everton á föstudagskvöld og ræddu þeir Hermann, Gylfi Einarsson og Tómas Þór Þórðarson afleitan árangur liðsins á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, þar sem liðið hefur ekki skorað í átta þeirra og tapað sjö.

„Mér finnst þetta hálfsorglegt og ég eiginlega skil ekki alveg af hverju, en hann [Mikel Arteta knattspyrnustjóri] virðist fá alveg frið þarna,“ bætti Hermann við.

„Ég held að það hafi keypt honum svolítið frið að þeir unnu þarna bikarinn og svo meistara meistaranna. Það gefur honum svona smá frið en þetta getur ekki varað að eilífu,“ sagði Gylfi þá.

Í spilaranum hér að ofan má sjá umræðu þeirra félaga um Arsenal í heild, þar sem afleitur varnarleikur Granit Xhaka í aðdraganda pínlegs sjálfsmarks Bernd Lenos í leiknum berst til að mynda í tal.

mbl.is