Hefur ekki áhuga á Tottenham

Brendan Rodgers er ánægður hjá Leicester.
Brendan Rodgers er ánægður hjá Leicester. AFP

Brend­an Rod­gers, knatt­spyrn­u­stjóri Leicester í ensku úr­vals­deild­inni, hefur engan áhuga á stjórastöðunni hjá Tottenham sem leitar nú að arftaka Josés Mourinhos.

José Mour­in­ho var sagt upp störf­um sem knatt­spyrn­u­stjóra Totten­ham fyrr í mánuðinum og Ryan Ma­son valinn til að stýra liðinu út keppn­is­tíma­bilið. Forráðamenn félagsins leita nú að arftaka Portúgalans og hafa enskir fjölmiðlar sagt Rodgers efstan á óskalistanum.

Sky Sports greinir hins vegar frá því í dag að Norður-Írinn hefur engan áhuga á að færa sig um set. „Tottenham er eitt af þessum stóru frábæru félögum á Englandi,“ sagði Rodgers við blaðamenn í síðustu viku. „En ég einbeiti mér alfarið að Leicester, ég á óunnið verk hérna og frábært samband við alla hjá félaginu.“

Kemur einnig fram í frétt Sky að Julian Nagelsmann hafi komið til greina hjá Tottenham en hann hefur nú samþykkt að taka við þýska stórliðinu Bayern München í sumar. Annað nafn sem er inni í myndinni er Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, sem er á leiðinni með liðið á EM í sumar.

Totten­ham er sem stend­ur í sjö­unda sæti ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar með 53 stig, fimm stig­um frá meist­ara­deild­ar­sæti. Leicester er í þriðja sæti með 62 stig og líklegt til að spila í sterkustu deild Evrópu á næstu leiktíð.

mbl.is