Mikið tap á rekstri Liverpool

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á rekstur enska knattspyrnufélagsins Liverpool.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á rekstur enska knattspyrnufélagsins Liverpool. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool var rekið með 46 milljóna punda tapi á síðasta ári en þetta kom fram í ársskýrslu sem félagið birti á heimasíðu sinni í dag.

Tapreksturinn má rekja til áhrifa vegna kórónuveirufaraldursins, að því er fram kemur á heimasíðu Liverpool, en tapið nemur tæplega 8 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur félagsins drógust mikið saman en til samanburðar má nefna að Liverpool tapaði 13 milljónum punda vegna áhorfendabanns á Englandi á síðasta ári vegna heimsfaraldursins.

Enska félagið skilaði hagnaði upp á 42 milljónir punda árið 2019 og því ljóst að faraldurinn hefur gert Liverpool afar erfitt fyrir.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að tap Liverpool, vegna áhorfendabanns, verði í kringum 120 milljónir punda, en það á eftir að koma betur í ljós í ársskýrslu félagsins á næsta ári.

mbl.is