Leicester mistókst að nýta sér liðsmuninn

Jonny Evans jafnar metin fyrir Leicester í síðari hálfleik.
Jonny Evans jafnar metin fyrir Leicester í síðari hálfleik. AFP

Jonny Evans bjargaði stigi fyrir Leicester þegar liðið heimsótti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á St. Mary's-völlinn í Southampton í kvöld.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Evans skoraði jöfnunarmark Leicester á 68. mínútu eftir að James Ward-Prowse hafði komið Southampton yfir með marki úr vítaspyrnu á 61. mínútu.

Jannick Vestergaard, miðvörður Southampton, fékk að líta beint rautt spjald á 10. mínútu en Leicester-mönnum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn, þrátt fyrir að vera einum fleiri í rúmlega 80 mínútur.

Leicester er með 63 stig í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum meira en Chelsea, sem er í fjórða sætinu.

Southampton siglir lygnan sjó með 37 stig í fjórtánda sæti deildarinnar og er tíu stigum frá fallsæti þegar fimm umferðir eru eftir af tímabilinu.

mbl.is