Enn tapar Everton á heimavelli

Anwar El Ghazi fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Anwar El Ghazi fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP

Aston Villa gerði góða ferð á Goodison Park í Liverpool þegar liðið vann heimamenn í Everton 2:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Á 13. mínútu tóku gestirnir í Aston Villa forystuna. Mason Holgate gerði sig þá sekan um hræðileg mistök þar sem Ollie Watkins hirti boltann af honum rétt fyrir utan vítateig Everton, hljóp í átt að marki, Holgate reyndi að negla hann niður en Watkins stóð tæklinguna af sér, hélt sínu striki og kláraði laglega í gegnum klofið á Jordan Pickford og í fjærhornið, 1:0.

Aðeins sex mínútum síðar jafnaði Everton metin. Lucas Digne tók þá hornspyrnu frá hægri, gaf á fjærstöngina þar sem Dominic Calvert-Lewin hafði slitið sig lausan og skallaði boltann í netið, 1:1.

Bæði lið fengu áfram góð færi til þess að bæta við og þá sér í lagi Aston Villa. Anwar El Ghazi skaut til að mynda í þverslána af stuttu færi eftir rúmlega hálftíma leik og Ross Barkley skaut skömmu síðar í stöngina.

Staðan var því 1:1 í hálfleik

Síðari hálfleikur var ekki jafn fjörugur og sá fyrri en seint í leiknum, á 80. mínútu, komst Aston Villa yfir að nýju. El Ghazi fékk þá boltann frá Bertrand Traoré, lagði hann fyrir sig á D-boganum og skoraði með glæsilegu skoti upp í fjærhornið, 2:1.

Everton reyndi að jafna en hafði ekki erindi sem erfiði og leiknum lauk því með góðum sigri Aston Villa.

Með sigrinum fer Aston Villa upp í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Everton er áfram í 8. sæti deildarinnar.

Hvorki gengur né rekur hjá Everton á heimavelli í deildinni á þessu ári, þar sem sex af 10 leikjum hafa tapast, þrír endað með jafntefli og aðeins einn unnist.

Gylfi Þór Sigurðsson lék fyrstu 82 mínútur leiksins í liði Everton.

Dominic Calvert-Lewin fagnar marki sínu í kvöld.
Dominic Calvert-Lewin fagnar marki sínu í kvöld. AFP
Ollie Watkins fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum í Aston …
Ollie Watkins fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum í Aston Villa. AFP
Everton 1:2 Aston Villa opna loka
95. mín. Leik lokið Aston Villa vinnur sterkan útisigur gegn Everton.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert