Neita að starfsfólk Old Trafford hafi opnað leikvanginn

Hópur stuðningsfólks braut sér leið inn á Old Trafford áður …
Hópur stuðningsfólks braut sér leið inn á Old Trafford áður en leikurinn átti að hefjast í gær. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United segir að fréttir um að mótmælendum fyrir utan leikvang félagsins í gær hafi verið hleypt inn á Old Trafford af starfsfólki félagsins séu ekki á rökum reistar.

„Margt af stuðningsfólki okkar vildi nýta sér rétt sinn til að mótmæla og láta skoðun sína í ljós á friðsamlegan hátt en sumir voru hinsvegar staðráðnir í að trufla undirbúning liðsins og leikinn sjálfan, eins og sást á aðgerðum þeirra við Lowry-hótelið og við leikvanginn,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

„Fréttir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um að mótmælendur hefðu komist inn á leikvanginn í gegnum hlið sem starfsfólk félagsins hafi opnað fyrir þeim eru algjörlega ósannar,“ segir m.a. í yfirlýsingunni og þar kemur fram að umræddir mótmælendur hafi brotið sér leið framhjá öryggisvörðum og klifrað yfir hlið til að opna dyr inn á völlinn sjálfan. Þá hafi einn mótmælendanna brotið hurð og þannig gert hópi kleift að komast þannig inn á völlinn.

„Meirihluti stuðningsfólks okkar hefur fordæmt og mun fordæma glæpsamlegt athæfi og skemmdarverk, sem og ofbeldi gagnvart starfsfólki félagsins, lögreglu og öðru stuðningsfólki. Þeir sem áttu aðild að því eiga nú yfir höfði sér lögreglurannsókn.

Félagið hefur engan áhuga á að friðsömum mótmælendum sé refsað en mun aðstoða lögreglu við að bera kennsl á þá sem hafa tekið þátt í glæpsamlegu athæfi, og mun beita eigin viðurlögum gagnvart þeim ársmiðahöfum eða félagsmönnum sem uppvísir verða að slíku,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Ekki er ennþá ljóst hvenær leikur Manchester United og Liverpool fer fram en honum var aflýst síðdegis í gær vegna mótmælanna, þar sem ekki tókst að tryggja öryggi leikmanna eða starfsfólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert