„Erfiður dagur fyrir okkur“

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir kominn tíma til þess að hlusta á hvað stuðningsmenn félagsins hafi að segja.

Fjölmenn og kröftug mótmæli í garð eigenda félagsins, hinnar bandarísku Glazer-fjölskyldu, áttu sér stað fyrir utan Old Trafford fyrir leik liðsins gegn Liverpool síðastliðinn sunnudag, auk þess sem einnig var mótmælt fyrir utan liðshótel beggja liða.

„Þetta var erfiður dagur fyrir okkur. Við vildum vinna Liverpool fyrir stuðningsmenn okkar. Við verðum að hlusta. Við þurfum að heyra rödd stuðningsmannanna.

Allir hafa rétt til þess að mótmæla en það verður að vera á friðsamlegan hátt og þegar lögregluþjónar meiðast er það yfir strikið. Þá snýst þetta ekki lengur um að láta í ljós skoðanir þínar,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag.

Í mótmælunum var einn lögregluþjónn dreginn og sparkað í hann og annar hlaut beinbrot við auga. Búið er að handtaka einn mótmælendanna.

„Við viljum hlusta. Það verður að vera við friðsamlegar aðstæður. Segið hvað ykkur finnst. Við þurfum að bæta samskipti okkar sem félags. Eigendurnir gengust allir við því að áformin um Ofurdeildina hafi verið röng ákvörðun að taka,“ bætti hann við.

Solskjær sagðist persónulega hafa fengið afsökunarbeiðni frá eigendunum, þótt Avram Glazer hafi ekki viljað biðja stuðningsmenn afsökunar þegar hinir ýmsu fjölmiðlar hafa leitast eftir því við hann.

mbl.is