Arsenal leiðir kapphlaupið

Stuart Dallas og Yves Bissouma eigast við í leik Leeds …
Stuart Dallas og Yves Bissouma eigast við í leik Leeds og Brighton á dögunum. AFP

Yves Bissouma, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Brighton, er eftirsóttur af liðum í ensku úrvalsdeildinni en félög á borð við Arsenal, Manchester City,Tottenham, West Ham og Everton hafa öll áhuga á honum.

The Express greinir frá því að Arsenal leiðir kapphlaupið um leikmanninn sem er 24 ára gamall og hefur leikið með Brighton frá árinu 2018.

Hann gekk til liðs við enska félagið frá Lille í Frakklandi en hann á að baki nítján landsleiki fyrir Malí þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

Bissouma hefur verið besti leikmaður Brighton á tímabilinu en hann er samningsbundinn enska úrvalsdeildarfélaginu til sumarsins 2023.

Brighton vill fá í kringum 40 milljónir punda fyrir leikmanninn en The Express greinir frá því að hann sé til sölu í sumar fyrir rétta upphæð. Hann á að baki 92 leiki fyrir Brighton í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.

mbl.is