Fyrirliði Roma orðaður við Liverpool

Paul Pogba og Lorenzo Pellegrini eigast við í leik Roma …
Paul Pogba og Lorenzo Pellegrini eigast við í leik Roma og Manchester United í Evrópudeildinni í gær. AFP

Lorenzo Pellegrini, fyrirliði knattspyrnuliðs Roma á Ítalíu, gæti gengið til liðs við Englandsmeistara Liverpool í sumar. Það er Mirror sem greinir frá þessu en samningur miðjumannsins rennur út næsta sumar.

Pellegrini, sem er 24 ára gamall, hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við ítalska félagið en hann á að baki 149 leiki í öllum keppnum fyrir Roma þar sem hann hefur skorað nítján mörk og lagt upp önnur 34.

Samkvæmt frétt Mirros hefur Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool lengi haft augastað á leikmanninum sem kostar í kringum 40 milljónir punda.

José Mourinho mun taka við Roma í sumar en fari svo að Pellegrini neiti að skrifa undir nýjan samning verður leikmaðurinn seldur í sumar.

Pellegrini lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ítalíu árið 2017 en hann á að baki sautján landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert