Glazer vill ræða við stuðningsfólkið

Avram Glazer og Joel Glazer, tveir af stjórnarmönnum og eigendum …
Avram Glazer og Joel Glazer, tveir af stjórnarmönnum og eigendum Manchester United. AFP

Joel Glazer, stjórnarformaður og einn eigenda enska knattspyrnufélagsins Manchester United, lofar því að styrkja sambandið við stuðningsfólk félagsins í kjölfarið á mótmælunum sem urðu í kjölfarið á þeirri ákvörðun Manchester United að taka þátt í stofnun hinnar svokölluðu ofurdeildar í Evrópufótboltanum á dögunum.

Samtök stuðningsklúbba félagsins, Manchester United Supporter's Trust (MUST) skrifuðu Glazer opið bréf fyrr í þessari viku þar sem eigendurnir voru hvattir til þess að hafa stuðningsfólkið með í ráðum í ákvarðanatöku sinni.

Reiðir stuðningsmenn United mótmæltu harkalega fyrir utan Old Trafford síðasta sunnudag með þeim afleiðingum að fresta þurfti leik liðsins við Liverpool.

Glazer segir í svari til MUST að félagið sé tilbúið til að eiga uppbyggilegar viðræður við samtökin um hin ýmsu málefni, þar á meðal þau mót sem Manchester United taki þátt í. Glazer segir ennfremur að eigendurnir geri sér grein fyrir mikilvægi stuðningsfólksins og að það komi að ákvarðanatöku. Þeir séu reiðubúnir til að ræða nánar hvernig hægt sé að útfæra það.

MUST brást við þessu með yfirlýsingu um að nú yrðu þessi orð stjórnarformannsins að leiða til aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert