Enn einn endurkomusigur United á útivelli

Edinson Cavani fagnar marki sínu.
Edinson Cavani fagnar marki sínu. AFP

Manchester United vann góðan 3:1 útisigur gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir að hafa verið marki undir í hálfleik sneru gestirnir taflinu sér í vil í síðari hálfleiknum og unnu þar með enn einn endurkomusigurinn á útivelli í deildinni.

Það voru gestirnir í Man Utd sem byrjuðu leikinn af miklum krafti og sköpuðu sér nokkur fín færi og hálffæri án þess þó að finna leið framhjá Emi Martínez í marki Aston Villa.

Heimamenn í Aston Villa náðu svo forystunni um miðjan hálfleikinn. Þá missti Scott McTominay boltann nálægt eigin vítateig, Douglas Luiz renndi boltanum á Bertrand Traoré sem tók laglega gabbhreyfingu, Victor Lindelöf komst í boltann en potaði honum aðeins örstutt frá, Traoré náði boltanum aftur og náði stórglæsilegu skoti sem söng í samskeytunum, 0:1.

Man Utd var áfram við völd í leiknum og hélt áfram að koma sér í fínar skotstöður, án þess þó að velgja Martínez undir uggum.

Undir blálok fyrri hálfleiks komst Ollie Watkins í álitlega skotstöðu rétt fyrir utan teig þar sem hann náði fínu skoti niður í hornið þrátt fyrir að vera ekki í nægilega miklu jafnvægi en Dean Henderson í marki Man Utd varði vel.

Staðan því 0:1 í hálfleik.

Man Utd var þó ekkert á því að vera undir neitt mikið lengur. Á 51. mínútu fékk liðið vítaspyrnu þegar Douglas Luiz braut klaufalega á Paul Pogba innan vítateigs. Bruno Fernandes steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 1:1.

Örskömmu síðar, á 56. mínútu, voru gestirnir komnir yfir. Aaron Wan-Bissaka fann þá Mason Greenwood í teignum, hann sneri Tyrone Mings auðveldlega af sér, skaut í nærhornið og Martínez varði boltann inn, 2:1.

Eftir rúmlega klukkutíma leik vildu leikmenn Aston Villa fá vítaspyrnu. Eftir hornspyrnu skallaði Douglas Luiz boltann í höndina á Greenwood en hvorki Chris Kavanagh, dómari leiksins, né VAR aðhöfðust neitt.

Undir það síðasta pressaði Aston Villa stíft og fékk nokkur prýðis skotfæri.

Það var hins vegar Man Utd sem skoraði þriðja mark sitt í leiknum og gerði þar með út um hann á 87. mínútu. Marcus Rashford átti þá frábæra fyrirgjöf á varamanninn Edinson Cavani sem tók frábært hlaup og sneiddi boltann laglega í bláhornið, 3:1.

Skömmu síðar fékk Watkins sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann reyndi að fiska vítaspyrnu. Henderson snerti hann kannski örlítið en Kavanagh dómari var viss í sinni sök og vísaði honum af velli.

3:1 urðu lokatölur og nágrannarnir í Manchester City verða því ekki Englandsmeistarar enn um sinn.

Í ensku úrvalsdeildinni  á tímabilinu hefur Man Utd fengið á sig fyrsta mark leiksins í 10 útileikjum. Í þessum 10 leikjum hefur liðið hins vegar unnið níu og gert eitt jafntefli.

Bruno Fernandes jafnar metin fyrir Manchester United yfir með marki …
Bruno Fernandes jafnar metin fyrir Manchester United yfir með marki úr vítaspyrnu. AFP
Leikmenn Aston Villa fagna glæsilegu marki Aston Villa.
Leikmenn Aston Villa fagna glæsilegu marki Aston Villa. AFP
Hart barist í leiknum í dag.
Hart barist í leiknum í dag. AFP
Aston Villa 1:3 Man. Utd opna loka
96. mín. Leik lokið Man Utd vinnur enn einn endurkomusigurinn á útivelli í ensku úrvalsdeildinni!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert