Eiður um Liverpool: Smá vonarglæta

„Liverpool verður að vinna þennan leik,“ sagði Gylfi Einarsson í Vellinum á Símanum Sport um stórleik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester á fimmtudaginn kemur.

Liverpool vann 2:0-sigur gegn Southampton í gær og er nú sex stigum á eftir Leicester sem er í fjórða sæti deildarinnar með 53 stig.

Liverpool á hins vegar leik til góða gegn United en hann átt að fara fram um þarsíðustu helgi en var frestað vegna mótmæla stuðningsmanna United á Old Trafford.

„Ég er alveg á því að þeir verði að vinna þennan leik og þeir verða að spila til sigurs,“ sagði Gylfi.

„Þessir leikir eru alltaf stórir en þegar að þú setur þetta svona á töfluna þá verður leikurinn enn þá stærri og kannski í fyrsta sinn í langan tíma þar sem við sjáum smá vonarglætu fyrir Liverpool,“ bætti Eiður Smári Guðjohnsen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert