Úlfarnir komu til baka einum fleiri

Morgan Gibbs-White fagnar sigurmarki sínu innilega.
Morgan Gibbs-White fagnar sigurmarki sínu innilega. AFP

Wolverhampton Wanderers vann nauman 2:1 sigur á Brighton & Hove Albion í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Brighton lék megnið af síðari hálfleiknum einum færri og kom sigurmark Úlfanna á 90. mínútu.

Á 13. mínútu leiksins komust gestirnir í Brighton yfir. Pascal Gross tók þá hornspyrnu frá hægri og fann þar Lewis Dunk utarlega í vítateignum og skallaði Dunk af krafti í bláhornið, 0:1.

Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Á 53. mínútu var Dunk aftur í eldlínunni. Fábio Silva, framherji Úlfanna, var þá að sleppa í gegn, Dunk togaði hann niður og fékk beint rautt spjald að launum þar sem hann var aftasti maður.

Einum fleiri hófu Úlfarnir að setja Brighton undir sífellt meiri pressu en Robert Sánchez í marki gestanna var öflugur; varði þau skot sem komu á markið og greip vel inn í með góðum úthlaupum.

Stíflan brast þó á 76. mínútu. Varamaðurinn Adama Traoré tók þá laglegan þríhyrning við Silva á þröngu svæði innan teigs en Traoré þurfti ekki meira pláss og kláraði laglega í nærhornið framhjá varnarlausum Sánchez.

Á 84. mínútu fór títtnefndur Sánchez í skógarhlaup, Traoré komst upp að endamörkum, lagði boltann út á Morgan Gibbs-White sem skaut yfir markið úr sannkölluðu dauðafæri.

Á 90. mínútu fékk Gibbs-White þó annað tækifæri, eða raunar tvö, og brást honum ekki bogalistin í síðasta skiptið. Rayan Ait-Nouri átti þá lága fyrirgjöf frá vinstri sem Jakub Moder hreinsaði stutt frá. Gibbs-White náði boltanum, skaut í varnarmann, náði boltanum aftur og stýrði boltanum glæsilega í samskeytin, 2:1.

Þetta reyndist sigurmarkið og góður endurkomusigur Úlfanna því raunin.

Eftir að búið var að flauta til leiksloka fékk Neal Maupay í liði Brighton einnig beint rautt spjald. Það hlaut hann fyrir að láta Jon Moss dómara leiksins heyra það í leikslok.

Liðið siglir áfram lygnan sjó í ensku úrvalsdeildinni og er eftir sigurinn áfram í 12. sæti, á meðan Brighton er áfram í 15. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert