Reisa stálgirðingu af ótta við frekari mótmæli

Mótmælendur brutust inn á Old Trafford þarsíðasta sunnudag.
Mótmælendur brutust inn á Old Trafford þarsíðasta sunnudag. AFP

Forsvarsmenn enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United vilja ólmir forðast önnur mótmæli af svipuðu tagi og áttu sér stað fyrir utan leikvang félagsins, Old Trafford, um þarsíðustu helgi og hafa því reist þriggja metra stálgirðingu.

Mótmælin, sem snerust gegn eigendum félagsins, Glazer-fjölskyldunni, urðu til þess að stórleik Man Utd og Liverpool sem átti að fara fram 2. apríl var frestað.

Forsvarsmenn félagsins óttast að boðað verði til mótmæla fyrir utan Old Trafford á ný næstkomandi fimmtudagskvöld þegar áætlað er að frestaður leikurinn fari fram og var því brugðið á það ráð að herða öryggisráðstafanir.

Einnig á Man Utd heimaleik í dag gegn Leicester City klukkan 17 og voru girðingarnar reistar í tæka tíð fyrir þann leik ef ske kynni að mótmæli eigi sér einnig stað fyrir utan Old Trafford á eftir.

Girðingarnar hafa verið reistar fyrir framan norðurinngang leikvangsins og suðausturhluta hans, þar sem hundruð stuðningsmanna brutu sér leið inn á völlinn þarsíðasta sunnudag.

mbl.is