Úrvalsdeildarleikmaður handtekinn fyrir líkamsárás

Oli McBurnie í baráttunni við Luke Ayling, fyrirliða Leeds United.
Oli McBurnie í baráttunni við Luke Ayling, fyrirliða Leeds United. AFP

Oli McBurnie, framherji enska úrvalsdeildarfélagsins Sheffield United, sem þó er fallið úr deildinni, hefur verið handtekinn fyrir líkamsárás.

Myndband af hinum 24 ára gamla McBurnie fór í dreifingu á samfélagsmiðlum á sunnudagskvöld. Þar sést hann slá síma 21 árs gamals karlmanns, Elliott Wright, í jörðina.

McBurnie traðkar svo á símanum áður en hann slær og sparkar í Wright, sem náðist á myndbandið er síminn lá í jörðinni.

Wright sagði í samtali við The Sun að hann hefði séð McBurnie æsa sig við konu og því hafi hann kallað til hans: „Slappaðu af vinur. Þetta getur ekki verið verra en að falla.“

Hann sagði McBurnie hafa fyrirskipað sér að hætta að mynda á símann. Þegar Wright sagðist ekki vilja gera það hefði McBurnie ráðist á hann og veitt honum nokkur högg.

Lögreglan í Norður-Jórvíkurskíri á Englandi hefur staðfest að búið sé að handtaka 24 ára karlmann, þótt nafn McBurnie hafi ekki verið gefið upp í því samhengi, og er hann sem stendur í haldi lögreglu.

mbl.is