Leicester bikarmeistari í fyrsta sinn

Wes Morgan fyrirliði og Kasper Schmeichel varafyrirliði með bikarinn eftir …
Wes Morgan fyrirliði og Kasper Schmeichel varafyrirliði með bikarinn eftir að hafa tryggt sér enska bikarmeistaratitilinn í fyrsta sinn í dag. AFP

Það voru leikmenn Leicester sem fögnuðu sigri í ensku bikarkeppni á Wembley Stadium í dag en liðið vann Chelsea 1-0. Þetta er í fyrsta sinn sem Leicester verður enskur bikarmeistari en liðið hafði fyrir þennan leik spilað fjórað bikarúrslitaleiki en tapað þeim öllum.

Leikmenn Chelsea voru sprækari í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta sér það. Leicester byrjaði vel í seinni hálfleik og á 63. mínútu leiksins kom sigurmark leiksins. Youri Tielemans fékk boltann vel fyrir utan teiginn og lét vaða og boltinn söng í netinu. Virkilega vel gert hjá Youri Tielemans og lítið sem Kepa Arrizabalaga gat gert í þessu.

Chelsea skoraði á lokamínútu leiksins en markið var dæmt af vegna rangstöðu eftir VAR-skoðun. Stuttu áður hafði Kasper Schmeichel varið virkilega vel frá Mason Mount.

Það voru tæplega 20.000 áhorfendur á vellinum í dag og það var ótrulega gaman að sjá og heyra í þeim. Það voru mikil læti á vellinum enda langt síðan að stuðningsmenn liðanna fengu að sjá lið sín spila síðast.

En það voru stuðningsmenn Leicester sem fögnuðu í leikslok enda ansi stórt að vinna bikarinn í fyrsta sinn. Chelsea tapaði einnig úrslitaleiknum í bikarnum á síðasta tímabili, þá gegn Arsenal.

Chelsea og Leicester mætast aftur á þriðjudaginn en þá mætast liðin í ensku úrvalsdeildinni. Sá leikur er afar mikilvægur í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Chelsea fær annað tækifæri að vinna bikar síðar í þessum mánuði en þá mætir liðið Manchester City í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Mason Mount og Caglar Soyuncu eigast við í dag.
Mason Mount og Caglar Soyuncu eigast við í dag. AFP
Chelsea 0:1 Leicester opna loka
90. mín. Chelsea VAR Chelsea skorar en markið er dæmt af. VAR að störfum. Það kom góð sending frá Thiago Silva inn í teiginn á Ben Chilwell og eftir læti í teignum endaði boltinn í netinu en eins og áður segir er markið dæmt af. Dæmd rangstæða á Ben Chilwell. Hann virðist hafa verið aðeins fyrir innan. Staðan er sem sagt ennþá 1-0 fyrir Leicester.
mbl.is