Hvað sagði Ferguson um Glazer-fjölskylduna?

Sir Alex Ferguson nýtur geysilega mikillar virðingar.
Sir Alex Ferguson nýtur geysilega mikillar virðingar. AFP

Í hluta Manchesterborgar er viðkvæmt ástand vegna mótmæla stuðningsmanna knattspyrnuliðsins Manchester United. Mörgum þeirra er uppsigað við eigendur félagsins, Glazer-fjölskylduna bandarísku. 

Ekki eru það ný tíðindi því kaup þeirra á félaginu árið 2005 féllu í grýttan jarðveg hjá mörgum stuðningsmönnum liðsins, sérstaklega í Manchester. Á dögunum sauð upp úr þegar greint var frá hugmyndum um nýja deild sem yrði í eigu nokkurra félaga í Evrópu og er kölluð Super League. 

Mótmæli hafa staðið yfir af og til síðustu vikurnar og á dögunum þurfti að fresta leik Manchester United og Liverpool á Old Trafford eftir að fólk ruddist inn á völlinn á leikdegi. 

Sir Alex Ferguson er í eins konar guðatölu hjá mörgum stuðningsmönnum Manchester United eftir óhemjumikla velgengni sem knattspyrnustjóri félagsins. Ferguson var knattspyrnustjóri United þegar Glazer-fjölskyldan tók við stjórnartaumunum. Ferguson hallaði ekki orði á eigendurna á meðan hann starfaði hjá félaginu sem skiljanlegt er enda hafði hann þá hagsmuni af því að hafa samskiptin við þá í lagi. 

„Þetta kann að koma einhverjum á óvart“

Ferguson sendi hins vegar frá sér bókina Leading árið 2015 og var hún rituð af Michael Moritz. Ferguson hafði sest í helgan stein árið 2013 og þegar bókin kom út var hann ekki bundin Glazer-fjölskyldunni enda ekki lengur starfsmaður hjá henni. Þess vegna er áhugavert að rifja upp hvað Ferguson sagði um þessa umdeildu eigendur sem stuðningsmönnunum er svo uppsigað við.

„Þegar ég var knattspyrnustjóri hafði ég ekki undan neinu að kvarta varðandi Glazer-feðgana. Þetta kann að koma einhverjum á óvart en frá mínum bæjardyrum séð sem knattspyrnustjóri þá hafa þeir verið afar góðir eigendur. Knattspyrnustjórinn þarf að treysta á fernt frá eigendum liðsins: Engin afskipti, fjármuni til að kaupa leikmenn þegar á þarf að halda, stuðning og sanngjörn laun. Þegar þeir keyptu félagið sögðu Glazer-feðgarnir að um væri að ræða langtímafjárfestingu. Á þeim tíma þótti mér traustvekjandi að þeir höfðu átt Tampa Bay Buccaneers, ameríska fótboltaliðið, í áratug. Þegar þeir tók við [United] komu þeir ekki inn á fullu gasi. Þvert á móti. Ekki einn starfsmaður missti vinnuna þegar þeir tóku við. Þeir kunna að meta stöðugleika. Engar breytingar voru gerðar á starfsliðinu hvað varðar þjálfun eða markaðssetningu og aldrei settu þeir pressu á mig varðandi árangur eða liðsuppstillingu. Það segir heilmikið um þeirra nálgun.

Þeir sögðu aldrei nei við mig eða neituðu að gera eitthvað sem skipti mig miklu máli. Ég var líklega himnasending í þeirra huga vegna þess að ég óskaði aldrei eftir fáránlegum upphæðum [til leikmannakaupa]. Þegar við greiddum 24 milljónir punda fyrir Robin van Persie árið 2012 var það hæsta upphæð sem við höfðum borgað fyrir leikmann sem var 29 ára eða eldri. Eina spurningin sem Glazer-bræðurnir spurðu var varðandi aldur leikmannsins.

Sem var sanngjörn spurning vegna þess að árið 2008 höfðum við keypt Dimitar Berbatov frá Tottenham fyrir 30,75 milljónir punda þegar hann var 27 ára. Hægur en glæsilegur leikstíll Berbatov hentaði United ekki jafnvel þótt hann hafi skorað 21 mark keppnistímabilið 2010-2011 og væri markahæstur í deildinni ásamt öðrum. Árið 2012 seldum við hann til Fulham fyrir 3 milljónir punda. Ég skildi því hvers vegna Glazer-bræðurnir spyrðu út í Van Persie. Það var fyllilega sanngjarnt. En þegar leikmaður í þeim gæðaflokki er í boði þá verður maður að bregðast við.“

Malcolm Glazer stóð fyrir kaupunum á United árið 2005 en …
Malcolm Glazer stóð fyrir kaupunum á United árið 2005 en hann lést árið 2014, þá 85 ára gamall. AFP

Sir Alex Ferguson nefnir einnig í bókinni að ekki hafi farið fram hjá neinum að hópur stuðningsmanna Manchester United hafi mótmælt eignarhaldinu frá upphafi. Segist Ferguson oft hafa fengið beiðnir um að leggja þeim hópum lið sem settu sig upp á móti eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar. Einnig hafi stuðningsmenn lagt til við Ferguson að segja starfi sínu lausu í mótmælaskyni. Staða hans væri það sterk að þá yrði Glazer-fjölskyldan tilneydd að selja félagið. „Mér fannst aldrei neitt vit í þeirri hugmynd. Ég spurði á móti hvort menn héldu virkilega að United myndi þá mæta í leik á laugardegi án knattspyrnustjóra,“ segir Ferguson einnig í bókinni. 

Ferguson ekki hlynntur Super League

Hér er rétt að bæta því við að Sir Alex Ferguson hefur lítillega tjáð sig um fyrirætlanirnar umdeildu um Super League. Hann er greinilega ekki hrifinn af þeim þótt hann hafi ekki tekið sterkt til orða.

Ferguson rifaði upp að sem leikmaður og þjálfari hafi ávallt verið draumur að taka þátt í Evrópukeppnum og mörg af eftirminnilegustu augnablikum á hans ferli sem knattspyrnustjóri hafi verið í Evrópukeppnunum. Hann benti á að með stofnun Super League væri farið gegn áratuga sögu félagsliðakeppna í Evrópu á vegum UEFA. 

Alex Ferguson fylgist grannt með Manchester United.
Alex Ferguson fylgist grannt með Manchester United. AFP
mbl.is