Leikmaður Liverpool ekki í EM-hópnum?

Trent Alexander-Arnold hefur spilað vel fyrir Liverpool í undanförnum leikjum.
Trent Alexander-Arnold hefur spilað vel fyrir Liverpool í undanförnum leikjum. AFP

Það bendir allt til þess að Trent Alexander-Arnold, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verði ekki í enska landsliðshópnum sem tekur þátt í lokakeppni EM í sumar.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Alexander-Arnold hefur átt erfitt tímabil, eins og margir leikmenn Liverpool, þótt hann hafi spilað mjög vel fyrir félagið í undanförnum leikjum.

Þrátt fyrir það bendir allt til þess að þeir Kyle Walker, Kieran Trippier og Reece James séu allir á undan Alexander-Arnold í goggunarröðinni.

Þá er Aaron Wan-Bissaka, bakvörður Manchester United, einnig sagður vera á undan Alexander-Arnold í goggunarröðinni en Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, mun að öllum líkindum taka þrjá hægri bakverði með sér á EM.

Alexander-Arnold er einungis 22 ára gamall en hann hefur lagt upp sjö mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu í 32 byrjunarliðsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert