Ósammála um besta knattspyrnustjórann

Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds, er stjóri ársins í ensku úrvalsdeildinni að mati Gylfa Einarssonar, fyrrverandi landsliðsmanns.

Þetta kom fram í Vellinum á Síminn Sport í gær en þar gerðu þeir Gylfi, Tómas Þór Þórðarson og Bjarni Þór Viðarsson upp tímabilið í ensku úrvalsdeildinni.

Bjarni Þór var ekki sammála Gylfa og valdi Pep Guardiola, stjóra Englandsmeistara Manchester City, sem besta knattspyrnustjórann.

„Það er mjög auðvelt að segja að Guardiola sé stjóri ársins enda búinn að vera ágætur,“ sagði Gylfi.

„Þeir eru búnir að tapa fimmtán leikjum og Bielsa spilar mjög fallegan fótbolta. Hvernig hann hefur gert meðalleikmenn í B-deildinni að góðum leikmönnum í úrvalsdeildinni er magnað.

Ég er vissulega pínu litaður en það verður ekki tekinn frá honum þessi árangur sem hann hefur náð. Hann hefur mætt þessum stóru sex liðum og sótt, ekki pakkað í vörn,“ sagði Gylfi meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert