Stuðningsmenn eiga skilið að vita söguna á bak við brottförina

Jürgen Klopp og Georginio Wijnaldum hafa átt góð fimm ár …
Jürgen Klopp og Georginio Wijnaldum hafa átt góð fimm ár saman hjá Liverpool. AFP

Georginio Wijnaldum, miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, er á förum frá félaginu í sumar þegar samningur hans rennur út. Hann segist hafa viljað vera áfram hjá félaginu.

„Ég er að berjast við tárin. Fólkið í Liverpool hefur sýnt mér mikla ást þessi síðustu fimm ár. Ég mun sakna þeirra.  Ég vonaðist til þess að spila fyrir félagið í mörg ár til viðbótar en því miður fóru hlutirnir á annan veg.

Ég verð að hefja nýtt ævintýri. Ég er ekki búinn að skrifa undir neins staðar annars staðar,“ skrifaði Wijnaldum á instagramaðgangi sínum eftir að Liverpool tryggði sér þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni og þar með Meistaradeildarsæti eftir 2:0 sigur gegn Crystal Palace í gær.

Þessi ummæli hans hafa vakið nokkra athygli þar sem fastlega var búist við því að Wijnaldum væri þegar búinn að skrifa undir hjá spænska stórveldinu Barcelona, auk þess sem Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur látið hafa eftir sér að hann vilji gjarna halda hollenska landsliðsmanninum hjá félaginu, enda verið lykilmaður alla stjóratíð Klopp.

„Það vita það allir að það getur alltaf allt gerst í fótbolta. Staðan akkúrat núna er sú að þann 1. júlí verð ég ekki leikmaður Liverpool. Við sjáum til hvað ég geri á næstu vikum.

Ég mun hvílast svolítið og svo hitta fyrir [hollenska] landsliðið. Ég mun fara yfir sögu mína og hvernig allt þróaðist. Stuðningsmennirnir eiga skilið að vita söguna á bak við þetta,“ skrifaði hann einnig.

Á árunum sínum fimm hjá Liverpool hjálpaði Wijnaldum liðinu að vinna Meistaradeild Evrópu árið 2019 og ensku úrvalsdeildina í fyrsta skipti á síðasta ári. Þá vann hann einnig evrópska ofurbikarinn og heimsmeistarakeppni félagsliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert