Fyrirliði Liverpool gagnrýndi Leedsara

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, sakaði leikmenn enska úrvasdeildarfélagsins Leeds um vanvirðingu í viðtali við New York Times á dögunum.

Liverpool heimsótti Leeds í ensku úrvalsdeildinni hinn 19. apríl, stuttu eftir að fréttir bárust af fyrirhugaðri ofurdeild sem stærstu félög Evrópu vildu setja á laggirnar.

Þessi hugmynd fór ekki vel í knattspyrnufélög og stuðningsmenn í Evrópu sem létu vel í sér heyra og gagnrýndu félögin tólf, sem komu að stofnun deildarinnar, harðlega.

Leikmenn Leeds klæddust bolum í upphitun fyrir leikinn gegn Liverpool þar sem stóð að knattspyrnan væri fyrir stuðningsmenn.

Þá höfðu Leedsarar komið fyrir sams konar boltum í búningsklefa Liverpool sem leikmenn Liverpool ákváðu að fara ekki í.

„Þetta var vanvirðing,“ sagði Henderson í samtali við bandaríska miðilinn.

„Við leikmennirnir komum aldrei nálægt þessari ofurdeild og vissum ekki einu sinni af hugmyndinni. Við vorum allir mótfallnir þessu,“ bætti Henderson við.

mbl.is