Frá Leicester til Liverpool?

Youri Tielemans var á meðal bestu leikmanna Leicester á leiktíðinni.
Youri Tielemans var á meðal bestu leikmanna Leicester á leiktíðinni. AFP

Belgíski miðjumaðurinn Youri Tielemans er á óskalista enska knattspyrnufélagsins Liverpool. Það er belgíski miðillinn Nieuwsblad sem greinir frá þessu.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, ætlar að fylla skarðið sem Georginio Wijnaldum skilur eftir sig en samningur hans rennur út í lok júní og er hann sagður vera að ganga til liðs við Barcelona.

Wijnaldum lék í fimm ár með Liverpool og varð meðal annars Englands- og Evrópumeistari með liðinu á tíma sínum í Bítlaborginni.

Tielemans, sem er 24 ára gamall, hefur leikið með Leicester frá árinu 2019 en hann er fastamaður í belgíska landsliðinu.

Hann skoraði sex mörk og lagði upp önnur fjögur í 38 leikjum með Leicester í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann er verðmetinn á 40 milljónir punda.

Klopp ætlar sér að styrkja leikmannahóp sinn í sumar en Ibrahima Konaté er að ganga til liðs við félagið frá RB Leipzig fyrir 30 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert