Allir heilir fyrir úrslitaleikinn

Thomas Tuchel segir sínum mönnum til á æfingunni í Porto …
Thomas Tuchel segir sínum mönnum til á æfingunni í Porto í kvöld. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að allir sínir menn séu heilir og klárir í slaginn fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta gegn Manchester City sem fram fer í Porto annað kvöld.

„Það eru bestu fréttir sem hægt er að flytja, að við erum alveg meiðslalausir, og ég vona að það verði óbreytt eftir æfinguna í kvöld," sagði Tuchel við fréttamenn í Porto í dag.

Úrslitaleikur ensku liðanna hefst klukkan 19 annað kvöld.

Hjá Manchester City hefur verið óvissa með Ilkay Gündogan sem meiddist á æfingu en Sky Sport segir að gert sé ráð fyrir að hann verði leikfær annað kvöld.

mbl.is