Ætlar ekki aftur til Arsenal að láni

Dani Ceballos (t.v.) í leik með Arsenal.
Dani Ceballos (t.v.) í leik með Arsenal. AFP

Spænski miðjumaðurinn Dani Ceballos er á leiðinni aftur til Real Madríd eftir að hafa verið lánsmaður hjá Arsenal undanfarin tvö tímabil. Hann segist vera búinn að fá nóg af lánssamningum.

Ceballos er samningsbundinn Real til 2023 en hann hefur spilað 53 leiki fyrir liðið, síðast í apríl 2019. Síðan þá hefur hann varið tveimur tímabilum í Lundúnum sem lánsmaður. Þó honum hafi líkað dvölin á Englandi vel, þá vill hann gera langtímasamning við sitt næsta félag.

„Enska úrvalsdeildin er áfram heillandi, ég hef verið heppinn að fá að spila í henni,“ sagði Deballos í viðtali við Canal Sur Radio. „Ég er samningsbundinn Real næstu tvö árin og ég vil forðast annan lánssamning. Ég vil finna mér lið þar sem mér líður vel og ég get verið til lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert