Brentford í úrvalsdeildina eftir 74 ára bið

Brentford leikur í úrvalsdeildinni næsta vetur.
Brentford leikur í úrvalsdeildinni næsta vetur. AFP

Brentford mun leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næstu leiktíð eftir 2:0-sigur á Swansea í úrslitaleik umspilsins í B-deildinni á Wembley í dag. Ekki bara mun Brentford leika í efstu deild í fyrsta sinn í 74 ár heldur var þetta einnig fyrsti sigur félagsins í úrslitaleik.

Ivan Toney kom Brentford í forystu á 10. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að markvörðurinn Freddie Woodman braut af sér inn í eigin vítateig. Emiliano Marcondes bætti svo við marki tíu mínútum síðar eftir laglega fyrirgjöf Mads Rasmussen.

Staðan versnaði svo fyrir Swansea á 65. mínútu er Jay Fulton fékk beint rautt spjald fyrir háskalega tæklingu. Swansea þarf því að bíða áfram eftir að snúa aftur í úrvalsdeildina en félagið féll úr henni árið 2018.

Leikmenn Brentford gátu hins vegar fagnað fyrir framan um tólf þúsund áhorfendur á Wembley í dag en það skilar um 170 milljónum punda í kassann að komast upp í úrvalsdeildina ensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert