Fær launahækkun og fjármuni til að styrkja liðið

Thomas Tuchel fagnar Evrópumeistaratitlinum með þjálfarateymi sínu í Porto á …
Thomas Tuchel fagnar Evrópumeistaratitlinum með þjálfarateymi sínu í Porto á laugardagskvöldið. AFP

Thomas Tuchel knattspyrnustjóri Chelsea fékk góðan kaupauka fyrir að vinna Meistaradeild Evrópu með félaginu og hitti eigandann Roman Abramovich á fundi í Porto í gærmorgun þar sem þeir ræddu styrkingar á liðinu fyrir næstu leiktíð.

The Telegraph segir að þeir Tuchel og Abramovich hafi talað saman í fyrsta skipti í Porto á laugardaginn en Þjóðverjinn var ráðinn til félagsins í lok janúar. Þeir hafi síðan sest niður til viðræðna í gærmorgun og það hafi verið „jákvæður“ fundur.

Blaðið segir að þar hafi Tuchel tjáð Rússanum að hann vildi byggja upp nýtt stórveldi hjá Chelsea og talið er að hann fái allt að 200 milljónir punda til að styrkja liðið.

Tuchel er sagður vilja fá Romelu Lukaku frá Inter Mílanó eða Harry Kane frá Tottenham, og hann sé með bæði miðjumann og varnarmann í sigtinu til viðbótar við það. Adame Traore hjá Wolves og Jonas Hofmann hjá Borussia Mönchengladbach eru báðir nefndir til sögunnar og þá er Declan Rice hjá West Ham sagður efstur á óskalista Tuchels yfir miðjumenn.

Samið hefur verið við Thiago Silva um að leika áfram eitt tímabil með Chelsea, reiknað er með að Andreas Christensen skrifi fljótlega undir nýjan samning og viðræður við N'Golo Kanté um nýjan samning eru sagðar í undirbúningi. Þá er Tuchel sagður leggja áherslu á að samið verið áfram við Antonio Rüdiger sem er með samning til eins tímabils í viðbót.

Sjálfur er Tuchel sagður vera með sjö milljónir punda í árslaun hjá Chelsea og hann hafi fengið umtalsverða launahækkun eftir sigurinn á Manchester City á laugardagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert