Gæti orðið næsti stjóri Gylfa

Nuno Espirito Santo
Nuno Espirito Santo AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton mun hefja viðræður við Nuno Espirito Santo í dag og er Portúgalinn líklegur næsti knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga hjá bláa liðinu í Liverpool.

Carlo Ancelotti hætti með Everton í gær til að taka við Real Madrid og Espirito Santo hætti með Wolves eftir nýliðna leiktíð.

David Moyes hefur einnig verið nefndur til sögunnar sem mögulegur næsti stjóri Everton en hann fór frá félaginu fyrir átta árum til að taka við Manchester United.

Sky Sports greinir frá því að Espirito Santo hafi einnig rætt við Crystal Palace, en Everton er líklegur næsti áfangastaður fyrir Portúgalann. Þá greinir miðilinn einnig frá því að leikmannahópur Everton muni breytast töluvert í sumar.

mbl.is