Guardiola átti skilið að tapa

Pep Guardiola var vonsvikinn eftir tap sinna manna í úrslitum …
Pep Guardiola var vonsvikinn eftir tap sinna manna í úrslitum Meistaradeildarinnar. AFP

Lothar Matthäus, fyrrverandi fyrirliði knattspyrnuliðs Bayern München í Þýskalandi, gagnrýndi Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, harðlega eftir tap City gegn Chelsea í úrslitum Meistatadeildarinnar í Porto í Portúgal um síðustu helgi.

Kai Havertz skoraði sigurmark Chelsea í leiknum undir lok fyrri hálfleiks og reyndist það eina markið en Guardiola stillti upp áhugaverðu byrjunarliði í leiknum.

Það var enginn varnarsinnaður miðjumaður í liðinu og þá var enginn alvöru framherji í byrjunarliði City.

„Guardiola stal Meistaradeildarbikarnum frá félaginu og stuðningsmönnunum með liðsuppstillingu sinni í leiknum,“ skrifaði Matthäus í pistli sem birtist á heimasíðu Sky Sports.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef forráðamenn félagsins séu að ræða stöðu hans þessa stundina. Leikmennirnir hafa án alls vafa misst trú á knattspyrnustjóranum eftir tapið.

Hann bara varð að gera breytingar og breyta út af vananum. Hann var að reyna vera frumlegur á versta tíma. Hann átti skilið að tapa leiknum,“ bætti Matthäus við.

mbl.is