Verður Pirlo næsti stjóri Gylfa?

Andrea Pirlo stýrði Juventus á síðustu leiktíð.
Andrea Pirlo stýrði Juventus á síðustu leiktíð. AFP

Andrea Pirlo gæti tekið við enska knattspyrnufélaginu Everton á næstu dögum. Það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu.

Pirlo var rekinn sem stjóri Juventus í síðustu viku en hann hefur átt í viðræðum við Farhad Moshiri, eiganda Everton, um að taka við félaginu.

Carlo Ancelotti lét af störfum sem stjóri Everton í vikunni til þess að taka við stjórastöðunni hjá Real Madrid.

Pirlo, sem er 42 ára gamall, varð sex sinnum Ítalíumeistari á ferlinum með bæði AC Milan og Juventus.

Hann gerði Juventus að bikarmeisturum á tímabilinu en liðið féll úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar, ásamt því að hafna í fjórða sæti deildarinnar, og því var Pirlo rekinn.

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands, er samningsbundinn Everton til sumarsins 2022 en hann hefur leikið með félaginu frá árinu 2017.

mbl.is