Viðræður Conte við Tottenham sigldu í strand

Antonio Conte mun ekki taka við Tottenham.
Antonio Conte mun ekki taka við Tottenham. AFP

Knattspyrnustjórinn Antonio Conte mun ekki taka við enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham. Það er BBC sem greinir frá þessu.

Conte gerði Inter Mílanó að Ítalíumeisturum á nýliðinu keppnistímabili en lét af störfum hjá félaginu stuttu eftir að tímabilinu lauk eftir ósætti við forseta Inter, Steven Zhang.

BBC greinir frá því að viðræður ítalska stjórans og Daniels Levys, stjórnarformanns Tottenham, hafi siglt í strand meðal annars vegna þess að hjá Tottenham mun Conte ekki fá ótakmarkað fé til leikmannakaupa.

Conte vill styrkja leikmannahóp Tottenham með öflugum leikmönnum en stefna Tottenham í leikmannamálum hefur verið að kaupa unga og efnilega leikmenn og gera þá að betri knattspyrnumönnum.

Leit Tottenham að nýjum knattspyrnustjóra heldur því áfram en Nuno Espírito Santo, fyrrverandi stjóri Wolves, er sá nýjasti til þess að vera orðaður við stjórastöðuna hjá enska félaginu.

mbl.is