Bestur annað árið í röð

Kevin De Bruyne átti frábært tímabil með Manchester City.
Kevin De Bruyne átti frábært tímabil með Manchester City. AFP

Kevin De Bruyne, miðjumaður Englandsmeistara Manchester City, var útnefndur besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu af leikmönnum deildarinnar í gær. Þetta er annað árið í röð sem De Bruyne er valinn bestur af kollegum sínum.

Þá er hann þriðji leikmaðurinn til þess að afreka það að vera valinn bestur tvö ár í röð en Thierry Henry var valinn bestur árin 2003 og 2004. Cristiano Ronaldo var svo valinn bestur árin 2007 og 2008.

De Bruyne skoraði sex mörk og lagði upp önnur tólf mörk fyrir liðsfélaga sína í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á nýliðinni leiktíð en liðið vann úrvalsdeildina nokkuð örugglega.

Belgíski miðjumaðurinn hafði betur gegn Rúben Dias, Ilkay Gündogan, Bruno Fernandes og Harry Kane í kjörinu.

mbl.is