Leysir Alexander-Arnold af hólmi

Ben White er í enska landsliðshópnum sem er á leið …
Ben White er í enska landsliðshópnum sem er á leið á EM. AFP

Ben White hefur verið kallaður inn í enska landsliðið í knattspyrnu sem er á leið á lokamót EM sem hefst föstudaginn. Þetta tilkynnti enska knattspyrnusambandið á samfélagsmiðlum sínum í morgun.

White kemur inn í hópinn fyrir Trent Alexander-Arnold, varnarmann Liverpool, sem meiddist á dögunum og getur því ekki tekið þátt í lokakeppninni.

White var valinn í 36 manna æfingahóp Gareth Southgate á dögunum en komst ekki í lokahópinn en hann er samningsbundinn Brighton á Englandi.

Hann átti frábært tímabil með liðinu en hann getur leikið sem bæði miðvörður, bakvörður og varnarsinnaður miðjumaður.

mbl.is