Óttast að missa Pogba

Paul Pogba var dýrasti knattspyrnumaður heims þegar United keypti hann …
Paul Pogba var dýrasti knattspyrnumaður heims þegar United keypti hann af Juventus sumarið 2016. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United óttast að missa Paul Pogba frítt frá félaginu næsta sumar. Það er  ESPN sem greinir frá þessu.

Pogba er samningsbundinn Manchester United til sumarsins 2022 en hann hefur ekki skrifað undir nýjan samning við enska félagið enn sem komið er.

Miðjumaðurinn, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við United frá Juventus sumarið 2016 fyrir rúmlega 89 milljónir punda.

Hann hefur mátt þola gagnrýni fyrir frammistöðu sína með United oft á tíðum og verið sterklega orðaður við bæði Real Madrid og Juventus undanfarin ár.

ESPN greinir frá því að forráðamenn félagsins vilji halda Pogba á Old Trafford en það sé undir leikmanninum komið.

Pogba á að baki 206 leiki með United þar sem hann hefur skorað 38 mörk og lagt upp önnur 45 mörk fyrir liðsfélaga sína.

mbl.is