Potter næsti stjóri Gylfa og Everton?

Graham Potter hefur stýrt Brighton frá árinu 2019.
Graham Potter hefur stýrt Brighton frá árinu 2019. AFP

Enski knattspyrnustjórinn Graham Potter kemur til greina sem næsti stjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni. Það er The Athletic sem greinir frá þessu.

Potter, sem er 46 ára gamall, stýrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag og hefur gert það frá árinu 2019.

Undir hans stjórn endaði liðið í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 41 stig.

Carlo Ancelotti lét af störfum hjá Everton á dögunum til þess að taka við stórliði Real Madrid en Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands, hefur leikið með Everton frá árinu 2017.

Nuno Espiríto Santo og Frank Lampard hafa einnig verið orðaðir við stjórastöðuna hjá Everton, sem og Liverpool-mennirnir fyrrverandi þeir Rafael Benítez og Steven Gerrard.

mbl.is